Saga félagsins

video Heyrnarlausir hafa alltaf komið saman til þess að hafa félagsskap hver af öðrum, leita ráða og skiptast á skoðunum. Fram að stofnun Félags heyrnarlausra hittust heyrnarlausir oft heima hjá hver öðrum og voru heimili þeirra þá nokkurs konar félagsheimili. Þingholtsstræti 8 var árum saman einn helsti samkomustaður heyrnarlausra og oft var mikið fjölmenni samankomið í einni stofu eða 20-30 manns.

Þann 31. ágúst 1952 var fyrst stofnað félag fyrir heyrnarlausa hér á landi. Það voru Haraldur Árnason og Marteinn Friðjónsson frá Hafnarfirði og Guðmundur Björnsson frá Reykjavík sem stofnuðu félagið. Félagið varð hins vegar ekki langlíft og eftir aðeins sex mánuði var það lagt niður.

Árið 1959 var aftur ákveðið að stofna félag fyrir heyrnarlausra. Guðmundur Björnsson, Hervör Guðjónsdóttir, Markús Loftsson og Jón Leifur Ólafsson höfðu frumkvæði að stofnun félagsins og fengu Brand Jónsson, skólastjóra Málleysingjaskólans, til liðs við sig. Eftir nokkurra mánaða undirbúning var boðað til stofnfundar félagsins og var hann haldinn í Málleysingjaskólanum í Stakkholti, 11. febrúar 1960. Allir sem mættu á fundinn gengu í félagið, alls 33 einstaklingar.